Breytingar á barnalögum

Þann 12. júní sl. voru samþykktar breytingar á barnalögum sem ganga í gildi um næstkomandi áramót.

Veigamestu breytingarnar eru þær að dómara verður unnt að dæma foreldrum sameiginlega forsjá telji hann það þjóna hagsmunum barnsins. Samkvæmt gildandi rétti getur annað foreldri ávallt krafist niðurfellingar sameiginlegrar forsjár sem leiðir til þess að forsjá verður falin öðru foreldranna. Umrædd regla hefur verið umdeild en nýju lögin leiða til þess að foreldrar geta þurft að deila forsjá gegn vilja sínum. 

Lagabreytingarnar fela einnig í sér mikla breytingu á réttindum stjúpforeldra. Samkvæmt núgildandi lögum fá stjúpforeldrar sjálfkrafa forsjá yfir börnum maka síns, að því gefnu að maki fari einn með forsjá. Við skilnað eða sambúðarslit missa stjúpforeldrar hins vegar öll réttindi gagnvart stjúpbörnum. Í nýju lögunum er kveðið á um að foreldrar og stjúpforeldrar geri með sér samning ætli þeir að fara sameiginlega með forsjá barna. Þá verður sameiginleg forsjá foreldris og stjúpforeldris meginregla eftir skilnað eða sambúðarslit. Að auki er stjúpforeldrum sem fóru með forsjá stjúpbarna veittur réttur til að höfða forsjármál við skilnað eða sambúðarslit og krefjast forsjár eða umgengnisréttar við stjúpbarn eftir skilnað. 

Nýju lögin fela í sér margvíslegar aðrar breytingar á réttarstöðu barna, foreldra og annarra nákominna. Sem dæmi má nefna að kveðið er sérstaklega á um rétt barna til umgengni við aðra en kynforeldra. Þá er réttur forsjárlausra foreldra til upplýsinga um barn skýrður nánar auk þess sem aukin áherlsa er lögða á vægi sáttameðferðar en verið hefur, er það til að mynda gert að skilyrði fyrir því að unnt sé að höfða forsjármál að sáttamaður hafi gefið út vottorð um að sáttameðferð hafi farið fram.

Töluverður munur getur verið á réttarstöðu fólks eftir því hvort það höfðar forsjármál samkvæmt nýju eða gömlu lögunum, hvor kosturinn er betri fer eftir aðstæðum hverju sinni.

Allar nánari upplýsinar veitir Guðríður Lára Þrastardóttir hdl. í síma 415-2200.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu.

Aftur í fréttabréf