Bætur til þolenda afbrota

Síðastliðið sumar tóku gildi lög um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. 69/1995.

Tilgangur laganna er að tryggja greiðslu skaða- og miskabóta til þolenda afbrota enda hafa þeir sem brotin fremja, oft á tíðum ekki getu til þess að greiða þolendum bætur vegna þess tjóns sem þeir valda með brotunum.

Aðallega er um að ræða bætur vegna líkamstjóns, svo og miskabætur, sem eru greiddar vegna tjóns sem verður þegar brotið er gegn friði eða frelsi einstaklings, hvort sem er með líkamsmeiðingum eða öðrum hætti. Með lagabreytingunni var hámark greiddra bóta vegna líkamstjóns annars vegar og miska hins vegar, hækkað umtalsvert eða úr 2,5 milljónum í 5 milljónir vegna líkamstjóns og úr 600 þúsund krónum í 3 milljónir í tilfelli miskabóta.

Ætlunin með lagabreytingunni er fyrst og fremst sú að bæta stöðu þolenda kynferðisbrota og alvarlegri ofbeldisbrota, en fyrir breytinguna voru þolendum slíkra brota einungis tryggðar greiðslur úr ríkissjóði vegna lítils hluta tjóns síns. Breytingunni er ætlað að fylgja eftir þeirri hækkun sem orðið hefur á dæmdum skaðabótum til brotaþola í sakamálum, á þeim sautján árum síðan lögin voru sett, bæði vegna verðlagsþróunar og einnig áherslubreytinga í réttarfari.

Má sem dæmi nefna að algengar fjárhæðir miskabóta sem dæmdar eru í kynferðisbrotamálum og málum vegna alvarlegri ofbeldisbrota, hafa síðastliðin ár verið á bilinu 1-2 milljónir. Í tilviki slíkra brota munu einstaklingar, sem áður fengu verulegan hluta tjóns síns ekki bættan vegna þeirra takmarkana sem voru á hámarksfjárhæðum greiddra bóta, fá dæmdar bætur að fullu greiddar úr ríkissjóði.

Allar nánari upplýsinar veitir Eva Hrönn Jónsdóttir hdl. í síma 415-2200.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu.

Aftur í fréttabréf