Hvað er gjafsókn?

Gjafsókn er í stuttu máli sagt fjárhagslegur stuðningur til einstaklings við rekstur dómsmáls. Hún felst í því að ríkið greiðir málskostnað sem einstaklingur hefur af máli, þ.e. þóknun lögmanns o.fl. Ríkið greiðir þá þóknun lögmanns, sem dómari tiltekur, en er þó ekki skuldbundið til að greiða þá þóknun sem lögmaður kann að áskilja. Gjafsókn breytir því heldur ekki að einstaklingnum kann að vera gert að greiða gagnaðila málskostnað.
 
Gjafsóknarúrræðum má í grófum dráttum skipta í tvennt, þ.e. annars vegar gjafsókn samkvæmt almennum reglum og hins vegar lögbundna gjafsókn:
 
Gjafsókn samkvæmt almennum reglum
Til þess að fá gjafsókn samkvæmt almennum reglum þarf í fyrsta lagi að vera nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar. Í öðru lagi þarf svo öðru hvoru af eftirfarandi skilyrðum að vera fullnægt:

  1. að úrlausn málsins varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi viðkomandi eða hafi verulega almenna þýðingu. Sem dæmi um mál þar sem gjafsókn á þessum grundvelli er algeng má nefna mál einstaklinga gegn tryggingarfélögum þar sem deilt er um bætur fyrir slys, t.d. umferðarslys eða vinnuslys.

eða:

  1. að fjárhag einstaklingsins sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé. Við mat á þessu er fyrst og fremst horft á fjárhagslega stöðu einstaklingsins og hvort tekjur hans séu innan viðmiðunarmarka.

 
Lögbundin gjafsókn
Í öðrum tilvikum er gjafsókn lögbundin, sem þýðir að skylt er að veita hana, án tillits til tekna viðkomandi og annarra þeirra atriða sem að framan eru nefnd.
 
Gjafsókn er t.d. lögbundin þegar einstaklingur þarf að krefja ríkið um skaðabætur vegna þvingunarráðstafana lögreglu samkvæmt reglum 37. kafla sakamálalaga. Þetta geta t.d. verið mál sem varða skaðabætur fyrir handtöku, líkamsleit, húsleit, leit í bifreið og gæsluvarðhald.
 
Þá á lögbundin gjafsókn einnig oft við í málum sviði barnaréttar og barnaverndar, t.d. í faðernismálum og forsjársviptingarmálum.
 
Loks má nefna að í reglum um umboðsmann Alþingis kemur fram að varði kvörtun réttarágreining, sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr, geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það og er honum þá heimilt að leggja til að veitt verði gjafsókn í því skyni.
 
Umsóknir um gjafsókn 
Umsóknir um gjafsókn eru sendar innanríkisráðuneytinu sem tekur ákvörðun um gjafsókn að fengnu áliti gjafsóknarnefndar. Best er að njóta aðstoðar lögmanns við umsóknarferlið og veita OPUS lögmenn nánari upplýsingar um slíkt í síma 415-2200 og í gegnum [email protected].

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu. Ábyrgðarmaður er Erlendur Þór Gunnarsson hrl.

Aftur í fréttabréf