Framkvæmdir í fjöleignarhúsum

Nú rennur sá tími í garð þar sem húseigendur fyllast miklum eldmóð og vilja ganga í með hraði að framkvæma viðhald á húseigninni sem setið hafa of lengi á hakanum. Í því ljósi er rétt að benda á að vanda verður til verka svo ekki komi til deilna síðar meir innan húsfélagsins.

Allar ákvarðanir sem máli skipta, bæði er varðar fjármögnun og framkvæmd, verður að taka á löglega boðuðum húsfundum og mikilvægt að til þeirra sé boðað samkvæmt fyrirmælum fjöleignarhúsalaga.

Eins er nauðsynlegt að vanda fundarboð og greina þar frá meginefni tillagna. Ef þessu er ekki sinnt sem skyldi er alltaf hætta á að síðar komi fram mótmæli um lögmæti funda og þar með skuldbindingargildi húsfélaga vegna þeirra ákvarðana sem teknar voru og hafa umtalsverðan kostnað í för með sér.

Á húsfundinum sjálfum, þar sem ræða skal fyrirhugaðar framkvæmdir, er aðalatriðið að fundargerð sé rituð og frágengin samkvæmt fyrirmælum laganna og ófrávíkjanlegt skilyrði að þeir eigendur eignarhluta sem þar mæta riti undir fundargerð því til staðfestingar.

Þegar kemur að ákvörðunum varðandi framkvæmdir er mikilvægt að húseigendum sé ljóst að kostnaðarskipting vegna framkvæmda skal vera samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga. Hús eru eðlilega misjöfn að stærð og gerð og jafnan getur verið erfitt að greina á milli séreignarhluta fasteigna og svo sameignarhluta, sem getur verið í sameign allra eða sumra sem í húsinu búa.

Hlutfallsskipting er meginreglan, þ.e. að allur sameiginlegur kostnaður skiptist eftir hlutfallstölum eignar en hlutfallstölur má finna í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fasteignar og hægt að kalla eftir hjá embætti sýslumanns. Eigendum er almennt óheimilt að semja um aðra skiptingu kostnaðar en lögin segja til um. Þó skal þess getið hér að í ákveðnum tilvikum á jöfn kostnaðarskipting vegna framkvæmda við. Er hér átt við tilvik þar sem um er að ræða óskipt bílastæði og aðkeyrslur, sameiginlegt þvottahús, lyftur og viðhald vegna þeirra o.fl.

Aðalatriðið er að láta ekki kappið hlaupa með sig í gönur þegar vor er í lofti heldur vanda vel til ákvarðanatöku og afgreiða í samræmi við ákvæði fjöleignarhúsalaga og hafa efst í huga að húsfundir eru ekki leiðindaflækjur og hindranir fyrir framkvæmdaglaða einstaklinga heldur æðsta valdið í málefnum fjöleignarhússins.

Nánari upplýsingar veitir Erlendur Þór Gunnarsson hrl. í síma 415-2200 eða í netfangið  [email protected].

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu. Ábyrgðarmaður er Erlendur Þór Gunnarsson hrl.

Aftur í fréttabréf