Hópmálsókn á hendur Arion banka

OPUS lögmenn munu á næstu vikum þingfesta mál á hendur Arion banka ehf. fyrir hönd málflutningsfélagsins Hagavagnsins vegna útboðs á Högum sem haldið var fyrir tæpum tveimur árum. Þá var hópi manna sem búsettur er erlendis hafnað um netáskrift án þess að fyrir því væri stoð í útboðsgögnum, verðbréfalýsingu eða auglýsingum og markaðsefni sem gefið var út fyrir útboðið.

Málið hefur þegar verið tekið fyrir í Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem kvað upp þann úrskurð að Arion banka bæri að afhenda hlutabréfin í Högum gegn greiðslu miðað við útboðsgengi. Málsóknin nú er til þess að knýja bankann til að hlíta þeirri niðurstöðu en hann hefur hingað til ekki fallist á að afhenda bréfin.

Ákvæði um hópmálssókn í einkamálalögunum eru ný af nálinni og hafa ekki verið notuð mikið hingað til. Þau henta sérstaklega vel í þessu máli þar sem málsaðstæður allra aðila eru þær sömu og kröfurnar sömuleiðis. Þá er líka jákvætt við lögin að aðrir einstaklingar, sem eins er ástatt um, geta gengið í málsóknarfélagið fram að þeim tíma sem aðalmeðferð hefst í málinu sem gera má ráð fyrir að verði fyrir komandi áramót.

Er þeim Íslendingum sem búsettir eru erlendis og tóku þátt í útboðinu í Högum í nóvember 2011 bent á að hafa samband við Borgar Þór Einarsson, hdl. ([email protected]) eða Konráð Jónsson ([email protected]) hjá OPUS lögmönnum ef þeir vilja taka þátt í málsókninni.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu.

Aftur í fréttabréf